Fréttir

Jólaopnun á laugardaginn.

On desember 10, 2014, in Uncategorized, by thingborg
0

Jólaopnun
Laugardaginn 13. desember verður opið lengur í Ullarversluninni í Þingborg, frá kl. 10.00-16.00.

Jólaglögg og smákökur og jólastemning í búðinni. Fallegar jólagjafir úr Þingborgarlopa og ýmsu öðru, prjónabækur, værðarvoðir, hekl- og prjónpakkningar, lopinn okkar góði og litað band og gjafabréf sem eru tilvalin í jólagjöf handa prjónafólki. Verið velkomin að líta við.

 

Höfuðfat 2014. úrslit!

On júlí 9, 2014, in Uncategorized, by thingborg
0

Ávarp Hildar Hákonardóttur er úrslit í Höfuðfat 2014 voru tilkynnt.

Það er mér sönn ánægja að skýra frá niðurstöðunum í þessari samkeppni
Við fengum 71 innsendingu frá 27 aðilum og heitið hafði verið þrennum verðlaunum – dómnefndin áskyldi sér í upphafi að fá að gera nokkrar tilnefningar, því yfir heildina var uppskeran mjög góð.

Við lögðum upp með þá hugmynd sem lýsir sér í nafninu að á hverjum tíma endurspegli höfuðfatið að nokkru leyti ástand þjóðarinnar og hugsunarhátt og við ætlum að ímynda okkur að þetta sé meira og minna satt. Því er spennandi að sjá hvað samkeppnin endurspeglaði.

Við byrjuðum að skipta innsendingunum í kollhúfur, skotthúfur, hjálma og hatta. Það voru ekki veitt verðlaun í þessum flokkum heldur var þetta einfaldlega flokkunarkerfi. Almennt séð má segja að svartur eða dökkir litir hafi verið nokkuð ríkjandi. Það þarf þó ekki að vísa til svartsýni en alla vega vísar það til vissrar alvöru – en gáski og glæfrasemi – einhvers konar kjötkveðjustemningu var eiginlega ekki að finna – stundum er svarti liturinn litur trúarinnar – en við teljum í þessu tilviki að hann beri þess vitni að þjóðin sé að leita sér að festu.

1 verðlaun hlaut Guðrún Ásgerður Steingrímsdóttir fyrir einstaklega fallegan hatt sem speglaði á ísmeygilegan hátt samfélagið með tilvísun í hið forna og þjóðlega, en var á sama tíma hnakkakertur eins og hanakambur.

2 verðlaun hlaut Fanney Einarsdóttir fyrir prjónakollu sem við kölluðum blómbikarinn, sem var fallega útfært prjónamynstur sem vísaði í náttúruna á sinn ljúfa máta.

3 verðlaun hlaut Sigríður E. Sigurðardóttir fyrir svartan hatt sem þótti á virðulegan máta tákna uppgang kvenna í stjórnum samfélagsins en kallaðist þó á við annan hatt sem fékk viðurkenningu vegna þess hve glaðlegur og kvenlegur hann var. Andstæða þarna en lífið er fullt af andstæðum.

Ólöf Steinarsdóttir fékk tilnefningu sem mætti vísa til fortíðar fyrir herðaskjól sem gat orðið hetta og var afar vel hannað …

Birna Imsland fékk tilnefningu sem mætti vísa til hins alþjóðlega – húfa sem sterkum hrosshárskambi sem hafði tilvísum í margar menningarheildir …

Auður B. Hjaltadóttir fékk tilnefningu fyrir þrjár kollur með fallegum útsaumi en höfuðföt hennar þóttu vísa til íslenska veruleikans eða hjálmsins sem verndar …

Bjarnfríður E. Hlöðversdóttir vann líka með hjálmformið en fékk tilnefningu sérstaklega fyrir afar vel gerðan svartan hatt sem sameinaði þessa þætti, hjálminn til verndar og framtíðarvirðuleika fyrir konur í vaxandi þjóðfélagsþátttöku …

Arnleif Margrét Kristinsdóttir fékk tilnefningu fyrir frumkvöðlastarf í hattagerð með réttarhatti sínum sem um leið tengdist dýrum og menningu landsins.

Sigríður E. Sigurðardóttir hlaut viðurkenningu fyrir blómkolluhatt sökum litagleði og bjartsýni eins og áður sagði.

Önnur höfuðföt í glaðlegum litum, gylltum og bleikum, voru einkum skotthúfur sem klæddu unga fólkið vel. Og þessi bleiki og gullni var eitthvað sem öll börn sem komu inn meðan hattarnir lágu á borðum – settu strax á höfuðið á sér.

Á sýningunni eru einnig pappírshattar og segja má að hver einasta innsending hafi verið vel gerð og átt heiðurssess skilið í höfuðfatasögunni.

Við þökkum innilega fyrir okkur.

Hildur Hákonardóttir.

 

Úrslit í höfuðfat 2014!

On maí 30, 2014, in Uncategorized, by thingborg
0

Á morgun,  laugardaginn 31. maí kl. 14.00 verða tilkynnt úrslit í keppninni Höfuðfat 2014 í Ullarvinnslunni í Þingborg.

Fjölmörg höfuðföt af ýmsu tagi bárust í keppnina og á morgun verður einnig opnuð sýning á þeim öllum, sem verður opin í sumar á opnunartíma verslunarinnar. Sjón er sögu ríkari!

Missið ekki af þessum viðburði og mætið í Gömlu Þingborg kl. 14.00 á laugardag.

 

Axir og atgeirar

On júní 22, 2011, in Uncategorized, by thingborg
0

Axir og atgeirar

Ný og spennandi peysumynstur sem minna okkur á atburði Njálssögu en nú eru 1000 liðin frá brennunni á Bergþórshvoli.

Margrét Jónsdóttir á þetta fallega mynstur.

 

On maí 5, 2011, in Uncategorized, by thingborg
0

Spunahópurinn hittist að Barkarstöðum í apríl og ákveðið var að flagga handspunanum okkar á Fjör í Flóa dögunum síðustu helgina í maí.

 

Vattarsaumur í Garði

On apríl 19, 2011, in Uncategorized, by thingborg
0

Nýlega var farin kynnisferð í Garð

til Reynis Katrínarsonar og setið í

vinnustofu hans við vattarsaum.

 

Gaukur á Stöng

On apríl 14, 2011, in Uncategorized, by thingborg
0

Félagar úr vefhópi Þingborgar sinna kljásteinavefstað fyrir uppsetningu á Gauk í Stöng í Árnesi.

Vilborg leikstjóri, Guðborg, Sigrún leikari, Guðlaug og Ásthildur.

Hildur tók myndina.

 

Vefsíðan vígð

On febrúar 9, 2011, in Uncategorized, by alda
0

Spunakvöld að Jaðri á Selfossi 9. febrúar.

Nýja vefsíðan formlega opnuð en hún er gerð af Öldu og Völundi.

Spunnið og skálað í tilefni af 20 ára afmæli Þingborgar.

 

Ljósmyndasýning

On janúar 31, 2011, in Uncategorized, by alda
0

Þjóðleg nytjalist – ÞJÓÐARHLIÐIÐ – hönnun og handverk.

Í anddyrinu hefur verið opnuð sýning á ljósmyndum Björns Kristinssonar. Sýningin er opin fram á vor á sama tíma og verslunin.

 

Þingborg 20 ára

On janúar 29, 2009, in Uncategorized, by admin
0

Þingborg ullarvinnsla var stofnuð árið 1991 og er því 20 ára á þessu ári.

Við byrjum afmælisárið á því að opna nýja vefsíðu og vonum að okkur takist að spinna hana og prjóna og þæfa vel svo hún þjóni tilgangi sínum vel.

Fleiri viðburðir verða á afmælisárinu og hér verður hægt að fylgjast með þeim.

Myndin hér til hliðar var tekin á 10 ára afmælishátíðinni.