Upphafið

Um 1990 var mikil vakning í handverki á landsvísu og þá bjó að Stóra-Ármóti eldhuginn og vefjarefnafræðingurinn, Helga Thoroddsen, sem safnaði um sig liði handverkskvenna, sem settu sér það markmið að vinna gæðavöru úr íslenskri ull. Með tilstyrk Byggðastofnunar og velvilja hreppsins hófst öflug starfsemi í gamla Þingborgarhúsinu þar sem konurnar fengu inni og lögðu þær mikið á sig til að gera þar góða vinnuaðstöðu.

Komið var á fót námskeiðum í meðferð og vinnslu ullar, einkum spuna og þæfingu. Í framhaldi af námskeiðunum var Ullarvinnslan sem er samvinnufélag stofnuð og sett upp verslun samfara vinnustað og hófst sú starfsemi árið 1991. Konurnar kenndu sig við staðinn og nefndust Þingborgar-hópurinn og urðu þær á skömmum tíma yfir 30 talsins.
Jóhönnusjóðurinn sem styrkti fyrirtæki kvenna og nýsköpun í atvinnuvegum var hjálplegur meðan verið var að stíga fyrstu skrefin. Til að byrja með skiptu konurnar með sér því sem vinna þurfti. Sumar prjónuðu peysur, aðrar sokka, vettlinga, grifflur, fiðusokka, og enn aðrar þæfðu hatta, tehettur og skrautepli. Hnappar úr beini, póstkort skreytt með ull eða hrosshári og hnappheldur voru framleiddar og margt fleira. Afgreiðslustörfum í versluninni skiptu konurnar einnig á milli sín, en nú er verslunin að mestu rekin af tveim úr hópnum og önnur þeirra sér um kembivélina.