Peysusamkeppni 2016

Peysusamkeppni Ullarvinnslunnar Þingborg.

Ullarvinnslan í Þingborg í Flóahreppi fagnar 25 ára afmæli á árinu 2016 og af því tilefni efndi Ullarvinnslan til peysusamkeppni.

Þema keppninnar var ,,Íslenska lopapeysan í nútíð og framtíð.“

 

Eftirfarandi kröfur þurfti að uppfylla til að taka þátt í þessari keppni:

  • Peysurnar eiga að vera úr íslenskum lopa og eða bandi
  • Peysurnar verða að vera frumsamdar
  • Peysan eða mynstrið má ekki hafa birst opinberlega

 

Þátttakan í keppninni fór fram úr björtustu vonum, 74 peysur bárust í keppnina frá 45 þátttakendum. Þær voru mjög fjölbreyttar að gerð og lagi, flestar voru prjónaðar, en líka sást hekl og eins rússneskt hekl.

Hönnuðum sem tóku þátt eru sendar bestu þakkir fyrir allar peysurnar sem bárust í keppnina. Það er ekkert endilega einfalt mál að senda frá sér peysu í keppni sem þessa, senda frá sér sitt höfundarverk sem nostrað hefur verið við bæði í hönnun og prjóni.   Það var einstaklega gaman að taka á móti þeim öllum, fjölbreytnin ótrúleg og margar gerðir. Hér eru myndir af verðlaunapeysunum, en allar peysur sem fengu verðlaun eða umsögn, auk nokkurra annarra, verða sýndar í Ullarversluninni í Gömlu Þingborg í sumar.

Dómnefnd skipuðu: Helga Thoroddsen vefjarefnafræðingur og prjónahönnuður, Guðrún Hannele Henttinen textílkennari og kaupmaður í Storkinum og Katrín Andrésdóttir dýralæknir og prjónahönnuður. Niðurstöður nefndarinnar voru eftirfarandi:

 

  1. sæti:

Hekluð peysa

Höfundur: Lilja Dröfn Dagbjartsdóttir, Reykjavík

Listin að hekla hefur gengið í endurnýjun lífdaga. Sérstaklega er ánægjulegt að fylgjast með unga fólkinu nýta þessa nánast afskrifuðu aðferð til að skapa nýjar útgáfur af fatnaði og öðrum nytjahlutum.

Þessi peysa sýnir nýja og spennandi útfærslu á hefðbundnu lopapeysunni, berustykkið í fallegu „lopapeysumynstri“, nostrað hefur verið við smáatriðin og handbragðið vandað.

Peysan er því mjög góður fulltrúi fyrir framtíðina og unga handverksfólkið.

 

  1. sæti.

Handspunnið og jurtalitað

Höfundur: Maja Siska, Skinnhúfu

Fyrir aldarfjórðungi var Þingborg í fararbroddi vakningar í ullarvinnslu. Handverksfólk um allt land fór að kanna möguleika íslensku ullarinnar og margir náðu mjög góðum tökum á spuna og jurtalitun.

Þessi peysa sýnir möguleikana á notkun á handspunnu bandi og jurtalituðu bandi. Óvenjulegt og skemmtilegt sniðið dregur fram sérkenni handspunna bandsins og jurtalitaða bandið grípur líka augað.

Peysan er því mjög góður fulltrúi fyrir líf og starf Þingborgar í aldarfjórðung.

  1. sæti.

„Hefðbundin“ lopapeysa

Höfundur: Ingibjörg Helga Guðmundsdóttir, Selfossi

Flestir eiga amk eina „hefðbundna“ lopapeysu. Þegar betur er skoðað þá er engin lopapeysa hefðbundin, sniðin breytast, mynstrin og litavalið sömuleiðis. Ýmis smáatriði eins og stroff og hálsmál setja líka svip á peysurnar.

Þessi peysa sýnir lopapeysu eins og flestir vildu eiga, fallegt lágstemmt mynstur, litavalið smekklegt, hálsmálið fallegt og þægilegt og handbragðið til fyrirmyndar.

Peysan er því mjög góður fulltrúi fyrir fallegu lopapeysuna sem flestir vilja klæðast í dag.

 

3 peysur til viðbótar fengu aukaverðlaun:

Þórir

Höfundur: Rúna Gísladóttir, Seltjarnarnesi

Stílhrein en einnig nokkuð óvenjuleg og fallega hönnuð peysa þar sem saman fara góðar litasamsetningar og sterk grafísk munstur auk þess sem peysan er afar vel prjónuð. Flott snið og góður frágangur.

Sinfónía

Höfundur: Rúna Gísladóttir, Seltjarnarnesi

Afar metnaðarfull og fallega hönnuð peysa sem greinilega hefur verið lögð mikil vinna í. Flott munsturprjón og einstaklega fallegar litasamsetningar þar sem mildir jurtalitir fá að njóta sín til fulls. Óvenjuleg og eftirtektarverð peysa með aðeins gamaldags yfirbragði en sómir sér þó vel í nútímanum.

Máni

Höfundur: Eygló Lilja Gränz, Selfossi

Vel prjónuð peysa með flottu sniði. Litasamsetningar eru óhefðbundnar en ganga vel upp og gefa peysunni skemmtilegt yfirbragð. Gott samræmi í litavali, sniði, munstri og hönnun.

 

Þessar peysur fengu umsagnir:

 

Músika

Höf: Guðrún Sigurðardóttir, Hvolsvelli

Þessi peysa vekur athygli fyrir skemmtilegt þema og óhefðbundnar litasamsetningar. Hönnuðurinn er óhræddur við að fara út fyrir hinn hefðbundna ramma í munstur- og litavali sem gefur peysunni óvenjulegt, sérstakt og skemmtilegt yfirbragð.

Norðurljós

Höf: Lorya Björk Jónsson, Hveragerði

Stílhein og einföld peysa en þó með samantvinnuðum skemmilegum smáatriðum sem gera hana óvenjulega og sérstaka. Óhefðbundnar litasamsetningar og peysan er vel prjónuð og frágangur góður.

Hella

Höf: Vagna Sólveig Vagnsdóttir, Þingeyri

Flott útivistarpeysa sem býður upp á margar útfærslur í lita- og munstursamsetningum. Getur höfðað til breiðs hóps og er mitt á milli þess að vera jakki og peysa. Hettan gefur peysunni skemmtilegt yfirbragð og aukið notagildi.

Feldur

Höf: Vagna Sólveig Vagnsdóttir, Þingeyri

Peysa eða kannski öllu heldur jakki fyrir þá sem vilja klæðast óvenjulegri og sérstakri hönnun. Djarflega hönnuð peysa þar sem nostrað hefur verið við smáatriði og frágang.

Ísabella

Höf: Svala S. Guðmundsdóttir, Reykjavík

Einföld og skemmtileg útfærsla á lopapeysum á tímabilinu 1965 – 1975. Í peysunni njóta sauðalitirnir sín afar vel og býður hún upp á margar útfærslur í prjóni. Gæti höfðað til breiðs hóps og sómt sér vel hvort sem er í sveit eða borg.

Draumapeysan

Höf: Aðalheiður Magnúsdóttir

Létt, ungleg og glaðleg peysa sem gæti höfðað til ungu kynslóðarinnar. Áhugavert litaval og sniðið óhefðbundið. Peysan er einföld í prjóni og tölurnar setja skemmtilegan svip á hana.

Eldfjall

Höf: Jóhanna Þ. Harðardóttir, Þorlákshöfn

Áhugaverð tilvísun í íslenska náttúru þar sem djarfir og óvenjulegir litir í munstri fara saman með hinu hefðbundna sniði lopapeysunnar.

Eyjafjallajökull

Höf: Margrét Linda Gunnlaugsdóttir, Reykjavík

Áhugaverð tilvísun í íslenska náttúru þar sem mildar og fallegar litasamsetningar minna á mosa og íslensk fjöll. Sniðið er óvenjuleg tilbreyting við hið hefðbundna lopapeysusnið en berustykkið fylgir lögmálum lopapeysunnar. Áhugaverð og sérstök hönnun með greinileg íslensk stíleinkenni.

Vetur – Vor – Haust

Höf: Gréta Björk Jóhannesdóttir, Reykjanesbæ

Stílhreinar og einfaldar lopapeysur sem gætu höfðað til breiðs hóps. Lágstemmdar og fallegar litasamsetningar með skemmtilegt náttúruþema. Peysurnar hafa sterk hönnunareinkenni og passa vel saman.

Norðurljós – Vetrarmorgunn – Haust – Vorið er komið – Gamburmosi

Höf: Bryndís Víglundsdóttir, Hafnarfirði

Þessar peysur eru einstaklega fallega prjónaðar, léttar og með góðu sniði. Þær hafa sterk höfundareinkenni en eru þó mjög ólíkar innbyrðis. Sérstakar litasamsetningar og munstur og nöfnin falla vel að þeirri tilfinningu sem maður fær fyrir hverri og einni peysu.

 

Lopapeysa
Flóastelpa
Lopapeysa
Eldfjall
lopapeysa
Draumapeysan
lopapeysa
Vor, haust og vetur

 

Lopapeysa
Norðurljós
lopapeysa
Feldur
lopapeysa
Peysur Bryndísar
Lpoapeysa
Hella
Lopapeysa
Eyjafjallajökull
Lopapeysa
Músíka
OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Ísabella
Lopapeysa
Sinfónía, Þórir og Máni
Lopapeysa
Amma löng
Lopapeysa
Línurit