Ullarskóli Íslands

Ullarvinnslan starfrækir Ullarskóla Íslands. Skólinn er samheiti yfir námskeið sem fram fara í húsinu og fræðslu sem þar er veit fyrir minni og stærri hópa. Hann starfar því í samræmi við eftirspurn. Töluvert er um að tekið sé á móti erlendum ferðamannahópum í samráði við ferðaskrifstofur og þeim sagt frá þessu sérstæða hráefni og gefið tækifæri til að handfjatla það og spreyta sig á því eða fá sýnikennslu.

Fyrsta námskeiðið

Valdís Bjarnþórsdóttir, ein Þingborgarkvennanna sem fyrst byrjuðu, segir svo frá:„Það voru þær Helga Thoroddsen og Hildur Hákonardóttir sem settu þetta verkefni af stað og stóðu fyrir námskeiði í meðferð ullar.

Ekki þótti öllum það gáfulegt fyrirtæki að fara aftur í tímann og vinna ull eins og formæður okkar gerðu. En sagan segir að ull hafi haldið lífi í Íslendingum fyrr á öldum og geri það jafnvel enn.

Fyrst þegar við byrjuðum var engin að hugsa um að fara út í það að framleiða vörur, en smám saman þróaðist það þannig og við erum enn að. Ekki voru tækin upp á það besta, þegar hafist var handa, einhverjar áttu íslenska rokka en aðrar notuðu haldasnældur. Helga átti að vísu einn rokk, sem var fluttur inn frá Hollandi og þótti hann mjög góður og einfalt að vinna á hann miðað við þann íslenska. Líka var til afnota handsnúin kembivél, sem þótti þvílíkur lúxus, þó notuðu sumar handkamba.

Ekki leið langur tími þangað til flestar voru búnar að kaupa sér rokka frá Hollandi og spunnu að lá við dag og nótt. Það var haustið 1991 að búðin var opnuð. Þetta þótti merkilegur atburður og komu margir gestir, en búðin átti eftir að stækka og sumar konur höfðu nóg að gera við það að framleiða vörur.”