Húsið

Þingborg í Hraungerðishreppi er, eins og nafnið ber með sér, gamalt þinghús og fyrrum samkomustaður sveitarinnar. Húsið er steinsteypt og elsti hlutinn er frá 1927. Áður hafði þinghús verið í Hjálmholti hjá sýslumanninum þar en eftir að Ölfusá og Þjórsá voru brúaðar og Flóavegurinn lagður þótti núverandi staðsetning við bílveginn heppilegri.

Sigurgeir Illugason frá Laugum í Hraungerðishreppi smíðaði að líkindum húsið en hann vann einnig við Laugavatnsskólann. Grunnformið er svipað og á samkomuhúsinu að Minni-Borg, en íburðarminna.

Frá því fræðslulögin tóku gildi 1907 hafði verið farkennsla í Hraungerðishreppi. Eftir að þinghúsið reis var kennslan flutt þangað. Í elsta hluta hússins er salur með leiksviði en kyndiklefi og lágreist herbergi í kjallara undir sviðinu . Þær vikur sem kennt var sváfu krakkarnir á bekkjunum, sem ýtt var út að veggum á kvöldin. Sviðið var stundum notað sem íbúð fyrir kennara og var skermað á milli því enginn lifir fjölskyldulífi fyrir svo opnum tjöldum. En þetta var óviðeigandi ástand.

Fljótlega var því hafist handa um að teikna viðbyggingu sem var ætluð fyrir heimavistarskóla. Var það gert á vegum Húsameistara ríkisins. Hún skyldi vera á tveimur hæðum, áföst að austan og byggingarárið 1934. Á neðri hæðinni voru tvö nemendaherbergi, eldhús, borðstofa, búr, snyrtiherbergi og gangur. Á efri hæðinni kennslustofa, gangur og lítil kennaraíbúð. Kvistir voru settir á eldra húsið og þar sváfu nemendur einnig. Við vesturendann bættist svo panelklætt anddyri sem fékk nafnið Laxaver. Smiðurinn hét Andrés Hallmundsson og var frá Selfossi og líklega teiknaði hann viðbótina.

Ýmsar endurbætur voru gerðar á húsinu einkum að innan eftir 1990 og 1998 og byggð útisnyrting fyrir gesti. Hana hló „Jói í Stapa“ eða Jóhann Guðmundsson kvæðamaður. Þá var útihurðinni snúið til vesturs sökum vinda og gerðar tröppur. Enn standa yfir endurbætur, nú undir umsjón Húsafriðunarnefndar ríkisins en húsið er í eigu ríkis og Flóahrepps.

Gamla Þingborg var því vinsælt fjölnotahús í alfaraleið, heimavistarskóli, samkomusalur fyrir margvíslega fundi, leiksýningar, eftirminnilega dansleiki og héraðssamkomur af ýmsum toga. Þarna voru haldnir frægir pólítískir fundir því húsið var vel í sveit sett og rúmgott. Sigríður Guðjónsdóttir er fædd og uppalin á Bollastöðum í Flóa en bjó lengst af sinn búskap að Skeggjastöðum sem er hinum megin við þjóðveginn. Hún man framfaratímana í landbúnaði þegar karlarnir riðu burtu af fundunum, sex og átta saman í hóp, hreifir með bjartsýnisglampa í augum og sungu við raust.

Í nýja þinghúsinu voru allir stærstu fundirnir haldnir eins og Mjólkurbúsfundurinn. Þá var gaman að búa við veginn. Við krakkarnir stóðum á hlaðinu og fylgdumst með þeim sem fóru fram hjá – þetta var sjónvarpið okkar, ekki inni í stofu heldur það sem var að gerast úti við,“ segir Sigríður.

Þegar rafmagnið kom í sveitina var haldin dúndurhátíð hér. Það voru ræðuhöld, veislukaffi, leiksýning og ball sem kallað var Ljósahátíð. Sýnd voru leikrit eins og Tengdamamma, Almannarómur og Hreppstjórinn í Hraunhamri. Nei-ið var árið 1936 – þegar mikli bylurinn kom og jólaskemmtunin var haldin í húsinu og bíll var fenginn frá Söðul … til að ná í krakkana og þá skelltu leikarnir sér með sem voru að æfa og nóg pláss var í húsinu þótt ballið fyrir krakkana væri í salnum. Meðan skemmtuninni stóð yfir kom svo mikil snjókoma að þegar átti að fara heim fannst ekki vegurinn, sumir urðu eftir í húsinu en bílinn braust út að Langstöðum og gott var að unga fólkið var með því það gekk á undan bílnum til að finna veginn. Farið með leikritin í Ásaskóla og Þykkvabæ og í bíóið á Selfossi – en aldrei var aðsókn þar. Alltaf var ball á eftir.

Þetta var aðalhúsið þangað til Brautarholt kemur. Kristinn í Halakoti var svo langur að það þurfti að halda uppi kappanum á leiksviðinu svo hann sæist allur. Álfabrenna var uppi á Helluhól – svo nefndur af því að þar óx ekki gras – og svo ball á eftir,“ svona var upprifjun Sigríðar á Skeggjastöðum á viðburðunum í Þingborg frá árum áður, viðkvæðið var alltaf það sama – og svo var ball á eftir.

Eftir að Gamla Þingborg lauk því hlutverki sínu að vera samkomuhús var þar til húsa bókasafn hreppsins og fyrsti vísir að leikskóla en nýr barnaskóli og nútímalegt samkomuhús var byggt skammt frá. Síðan 1990 hefur Ullarvinnslan haft aðsetur í gamla húsinu með verkstæði sín og verslun. Til að halda í hefðir er Gilsbakkaþulan sungin og stigið Vikivakaspor í húsinu á adventunni hvert ár.