Ull í lausu

ullUll bæði lituð og ólituð er seld í versluninni. Hópkonur fara norður í Ullarþvottastöðina á Blönduósi og velja lambsull bæði fyrir lopann og eins fyrir handspuna og þæfingu. Öll ull sem kemur til Þingborgar er þvegin varlega og meðhöndluð af kostgæfni til að vernda upprunalega eiginleika hennar.

Þingborg hefur frá upphafi leitast við að vinna aðeins úr úrvalsull.

Verð á ull í lausu pr. kíló kr. 4.250-

ull2Til handverks er mest notuð lambsull einkanlega ef ekki á að taka ofan af og vinna úr togi eða þeli eingöngu. Til þess að ull fari í úrvalsflokk þarf hún að vera laus við heymor eða húsagulku, óhreinindi og klepra. Litamerkingar frá úðabrúsum fara ekki úr ullinni þó öðru sé haldið fram og tína þarf frá gallaða ull áður en hún fer í þvott.

Til þess að þetta megi takast þarf að rýja strax eftir að féð er tekið á hús á haustin, áður en því er gefið nokkurt hey og best að ekki hafi rignt eða féð lent í hrakningum skömmu áður. Ef menn neyðast til að hýsa órúið fé vegna óveðurs, þá er nauðsynlegt að yfirfara öll reyfi og taka frá jaðra með óhreinindum og öðrum göllum. Ekki er hægt að reikna með að öll lambsull fari í úrvalsflokk.

Opinber ullarmatsnefnd hefur ekki verið starfandi síðan árið 2004. Kaupendur ullarinnar verða því að gera athugasemdir ef þeim finnst ullin ekki samsvara þeim flokki sem hún er merkt frá framleiðendum.