Vettlingakeppni

Rósavettlingar – Sprökuvettlingar – Tvíþumlavettlingar – Sjó(vaðar)vettlingar – Vestfirskir vettlingar – Laufavettlingar – Grifflur – Hestavettlingar – Sparivettlingar – Groddavettlingar – Tvíbandavettlingar – Þel(bands)vettlingar – Fingravettlingar – Hversdagsvettlingar – Karlmannsvettlingar – Kvenmannsvettlingar – Vinnuvettlingar – Róðrarvettlingar – Slorvettlingar – Belgvettlingar – Skíðavettlingar – Rakstrarvettlingar – Hrífuvettlingar – Landvettlingar – Ullarvettlingar – Eingirnisvettlingar – Færisvettlingar – fiæfðir vettlingar – Útprjónaðir vettlingar – og Uppáhaldsvettlingar

Ákveðið var að efna til opinnar samkeppni um gerð vettlinga í Ullarvinnslunni Þingborg í samvinnu við Listasafn Árnesinga. Tilgangurinn var að  vekja athygli á þeirri miklu fjölbreytni, sem tengist þessari þarfaflík, vettlingunum, og halda menningu þeirra á lofti. Einnig vildum við benda á fjölbreytileika íslensks hráefnis.

Skilyrði fyrir þátttöku voru:
1. Senda skal inn fullunnið vettlingapar í fullorðinsstærð.
2. Hráefnið skal vera íslenskt að langmestu leyti.
3. Aðferðin er frjáls, t.d. prjón, hekl, vattarsaumur, þæfing, vefnaður og útsaumur svo eitthvað sé nefnt.
4. Vinnulýsing skal fylgja þar sem einnig er greint frá því hvert hráefnið er og hvaðan það kemur.
5. Vettlingarnir skulu hafa borist til Þingborgar fyrir kl. 18 fimmtudaginn 11. maí 2000.
6. Hverju vettlingapari skal skila í umslagi merktu dulnefni ásamt lokuðu umslagi með nafni, heimilisfangi og símanúmeri höfundar.

Skipuð var dómnefnd Þingborgarkvenna, þeirra sem ekki taka þátt í keppninni. Í henni voru Þóra Þórarinsdóttir, Brynhildur Borge og Hildur Hákonardóttir.

Það var ákaflega gaman að vinna að þessari keppni.  Hugmyndin var svo einföld.  Vettlingur er lítil flík og þarfleg. Allir gátu því verið með. Við (í dómnefndinni) sáum strax að það var töluverður munur á vettlingunum, sem virtist benda til mismunandi aldurs prjónakvennanna, en því höfðum við reyndar  búist við.  Gamla hefðin var enn lifandi.

Það eru til konur, sem enn rækta fé með ull í fjölbreytilegum litum til að geta valið sér ull til brúkunar, konur sem taka ofan af og spinna.
Við ákváðum að kalla þennan fyrsta hóp 19. aldar vettlinga því  þeir byggðu á gömlum hefðum.
Verðlaunavettlingarnir höfðu 20 mismunandi mynsturbekki en einnig voru í þessum hópi pör, sem sýndu þá  einfeldni í formi og litameðferð, sem oft sjást á eldri vettlingum. En þarna hefði líka mátt verðlauna margt fallegt vestfirskt par og rósavettlinga.

Annan hópinn kölluðum við 20. aldar vettlingana. Í Þeim hópi varð sú hlutskörpust, sem á alveg nýjan máta notaði tog og þel. Hún byggði á gömlu hugsuninni en með ferskri útfærslu. Verðlaunahafinn tók ofan af gráu ullarreyfi Þar sem töluverður litarmunur var á togi og þeli.  Hún spann hvorutveggja en prjónaði svo með tvíbandi þannig að togið kom aðallega að utanverðu en þelið að innanverðu. Segja má líka að hún hafi notað aðferðir tvöfalds vefnaðar til að ná fram þessum áhrifum. Í Þessum hópi voru margir spennandi vettlingar. Einfalt og látlaust par með hrosshári, litríkir þæfðir sannkallaðir belgvettlingar, fannhvítir vettlingar úr ull úr Freyshólafé, litríkir belgvettlingar og fallegir munstraðir vettlingar með nýju lagi.

Þriðja hópinn kölluðum við 21. aldar vettlingana. Í þessum hópi þurftu vettlingarnir strangt til tekið ekki að vera brúkhæfir. Verðlaunavettlingarnir voru nánast svartir pokar, eins og spaðar í lögun, en hugmyndin að þeim varð til á kaldri nótt í bifreið meðan beðið var eftir að Hekla sýndi sig í gosham. Þeir voru skreyttir gulrauðri rönd og perlum í svörtum snúnum lopa með margs konar áferð, sem minnti á hraunið flæðandi.  Í þessa svörtu ullarpoka mátti líka stinga köldum fótum eða geyma í þeim gersemar, sem menn rækjust á úti í náttúrunni.

Þarna var líka margt fleira spennandi en sjón er sögu ríkari og vettlingarnir verða til sýnis í Þingborg í sumar. Þar er opið eftir hádegi hvern dag og hægt að skoða þessi rúmlega 170 pör og kaupa ull og spunaefni því líklegt er að úrvalið kveiki löngun hjá einhverjum til að fitja upp á fjóra prjóna.

Eftirfarandi atriði voru metin:
A. Lögun vettlingsins. Heppilegt þykir að skipta hefðbundnum vettlingum í þrjá jafna hluta frá stroffi:
1. Upphendi að þumalrót. 2. Miðkafla lófa sem samsvari lengd þumals. 3. Framhendi og úrtaka. Lengd og breidd vettlingsins þarf að samsvara sér vel og einnig þumall.
B. Litaval og áferð.
C. Gæði hráefnis og notkun Þess.
D. Handbragð og frágangur.
E. Frumleiki.

Dómnefnd kynnti niðurstöður sínar laugardaginn 13. maí kl. 14 í Þingborg. Þá voru allir velkomnir.
Listasafn Árnesinga lagði til þrjár viðurkenningar .
Nokkur pör af vettlingum voru valin út og sýnd í Þingborg það sumar.

Fjöldi innsendra vettlinga var 178, þátttakendur voru um 104 frá 34 póststöðvum, sem sýnir bæði að það var mikil þátttaka og jöfn dreifing um allt land.

19. aldar vinningshafinn var Guðrún Jakobsdóttir, Reykjahlíð í Mývatssveit
20. aldar vinningshafinn var Alda Sigurðardóttir. Selfossi
21. aldar vinningshafinn var Birna Imsland, Reykjavík.