Aðsend ull

Þvottaleiðbeiningar fyrir ull sem send er í Þingborg:

Ull sem kemur til okkar þarf að vera þvegin. Ekki má senda óhreina ull milli sauðfjárveikivarnarsvæða.

Það borgar sig ekki að láta vinna lélega ull.

Látið ullina liggja í miklu magni af a.m.k. 50 gráðu heitu vatni. Látið fljóta vel yfir ullina. Við þennan hita leysast upp öll óhreinindi svo og það mikið af fitu að vélin skaðast ekki.

Notið gott ullarþvottaefni. Magn fer eftir hversu óhrein ullin er. Hreyfið ullina ekki eftir að hún er komin í bleyti.

Breiðið vel yfir karið til að halda hitanum og látið liggja í bleyti í 45 til 60 mínútur.
Takið ullina varlega upp og þeytivindið. Leggið aftur í bleyti, nú í hreint skolvatn sem er u.þ.b. 45 gráðu heitt. Látið liggja smástund, þeytivindið á ný og breiðið til þerris á loftgóðum og þurrum stað.

Hreyfið ullina nokkrum sinnum á meðan hún er að þorna, svo að hún þorni jafnt allstaðar.
Þvegna ull er best að geyma í pappakössum eða bréfpokum.